Margrét Eiríksdóttir (dáin 1209) var sænsk konungsdóttir og drottning Noregs frá 1185 til 1202, kona Sverris Sigurðssonar Noregskonungs.
Margrét var dóttir Eiríks helga Svíakonungs og Kristínar Björnsdóttur konu hans. Hún giftist Sverri konungi árið 1185. Ekki er vitað hve gömul hún var þá en hún hefur ekki verið fædd seinna en 1160 því það ár dó faðir hennar. Þau Sverrir eignuðust aðeins eina dóttur, Kristínu. Drottningarinnar er sjaldan getið í sögu Sverris konungs en ýjað er að því að hún hafi verið grunuð um græsku.
Þegar Sverrir dó 9. mars árið 1202 fór Margrét til Vestur-Gautlands, þar sem hún átti miklar eignir, en varð að skilja Kristínu dóttur sína eftir þvert gegn vilja sínum. Hún sneri aftur rétt fyrir áramótin 1203-1204. Á nýársdag dó Hákon konungur Sverrisson, stjúpsonur hennar, og þótti ýmislegt benda til þess að honum hefði verið byrlað eitur. Margrét var grunuð um verknaðinn og reyndi hún að sanna sakleysi sitt með járnburði. Hún bar þó glóandi járnið ekki sjálf, heldur lét einn þjóna sinna gera það fyrir sína hönd. En það fór ekki vel því maðurinn brenndist illa, sem var talið sönnun um sekt. Manngreyinu var drekkt en Margrét drottning flúði í skyndingu til Svíþjóðar.
Í Sverris sögu og Böglunga sögum andar mjög köldu til Margrétar drottningar og Kristínar Níelsdóttur, systurdóttur hennar, sem var með drottningu og gekk síðar að eiga Hákon jarl galinn. Margrét er talin sek um að hafa eitrað fyrir Hákon konung og sömuleiðis var Kristín grunuð um að hafa átt þátt í dauða barnakonungsins Guttorms Sigurðssonar síðar sama ár.
Margrét kom þó aftur til Noregs síðar og var viðstödd árið 1209 þegar Kristín dóttir hennar giftist Filippusi Símonarsyni, konungsefni baglanna og systursyni Nikulásar biskups Árnasonar, helsta foringja bagla og erkióvini Sverris manns hennar. Þá hafði Noregi í raun verið skipt í þrennt og samið um að Filippus skyldi ráða Upplöndum og hluta af Víkinni en fengi ekki konungsnafn; aftur á móti fékk hann Kristínu, einkabarn Sverris konungs, fyrir konu. Margrét veiktist skömmu eftir brúðkaupið og dó innan fárra vikna.