Ragnheiður Runólfsdóttir

Ragnheiður Runólfsdóttir (f. 19. nóvember 1966) er íslensk sundkona og sundþjálfari. Árið 1991 var Ragnheiður valin Íþróttamaður ársins.

Ragnheiður er fædd og uppalin á Akranesi og er dóttir hjónanna Runólfs Óttars Hallfreðssonar og Ragnheiðar Gísladóttur sem bæði eru látin. Ragnheiður byrjaði ung að æfa sund á Akranesi en hélt síðar til náms í Alabama í Bandaríkjunum og útskrifaðist sem íþróttalífeðlisfræðingur.[1][2]

Ragnheiður var útnefnd Íþróttamaður ársins árið 1991 en þá þegar hafði hún sett um 200 Íslandsmet í sundgreinum. Hún var önnur konan til að hljóta titilinn.[2] Á ferli sínum keppti Ragnheiður tvisvar sinnum á Ólympíuleikum en hún tók þátt í leikunum í Seúl í Suður-Kóreu árið 1988 og í Barcelona á Spáni árið 1992 en lauk keppnisferli sínum að þeim leikum loknum.[3]

Eftir að keppnisferli hennar lauk hefur hún starfað við sundþjálfun, fyrst í Keflavík, Mosfellsbæ og á Akranesi. Frá 2011-2018 var Ragnheiður yfirþjálfari hjá sunddeild Óðins á Akureyri en árið 2019 hóf hún störf sem yfirþjálfari sundfélagsins SO2 í Gautaborg í Svíþjóð.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Hlustaði ekki á viðvörunarbjöllurnar“ Geymt 31 desember 2019 í Wayback Machine, Akureyri Vikublað, 12. október 2017 bls. 12-13 (skoðað 31. desember 2019)
  2. 2,0 2,1 „Besta keppnisárið mitt“, Morgunblaðið, 3. janúar 1992 (skoðað 31. desember 2019)
  3. Frettabladid.is, „Röð tilviljana leiddi mig í starfið“ (skoðað 31. desember 2019)
  4. Ingólfur Stefánsson, „Ragnheiður Runólfsdóttir tekur við einu stærsta sundfélagi Svíþjóðar“, kaffid.is 10. júlí 2019 (skoðað 31. desember 2019)