Suðurríkja Hipp Hopp | |
---|---|
Uppruni | Suðurríki Bandaríkjanna á 9. Áratugnum |
Hljóðfæri | Hljóðgervill, Trommugervill, Snúningsborð, Hljóðsarpur, Rapp |
Vinsældir | 9. Áratugurinn – nútíminn. Varð gífurlega vinsælt stuttu eftir 2000 |
Tengdar stefnur | |
Krönk – Trap |
Suðurríkja Hipp Hopp (e. “Southern Hip Hop/Dirty South”) er heiti yfir undirgrein hipp hopps sem átti uppruna sinn í suðurríkjum Bandaríkjanna. Borgir eins og Houston, Atlanta, Memphis, New Orleans og Miami eru oftast tengar við stefnuna og þá helst Houston og Atlanta.
Suðurríkja Hipp hoppið er oftast talað um sem þriðja stóra stefnan í Amerísku rappi, með Vesturstrandar Hipp hoppi og Austurstrandar Hipp Hoppi.[1]
Þrátt fyrir þónokkrar vinsældir seint á 20. öldinni var það í byrjun þeirrar 21. sem að Suðurríkja Hipp Hoppið fór að öðlast alminnilega útbreiðslu út fyrir suðurríkin og nú til dags er Suðurríkja Hipp Hoppið orðið jafn stórt, ef ekki stærra, en hinar fyrrnefndu Austurstrandar- og Vesturstrandar rappstefnur.
Rapparar í suðrinu hafa oftast annan stíl en samstarfsmenn þeirra í austrinu og vestrinu. Mikið slangur einkennir suðræna rappið og er það almennt hægara en hinar stefnurnar. Oft er talað um að suðurríkja rappið skorti djúpa textasmíði og er það vissulega rétt í mörgum tilfellum en þó alls ekki alltaf.[2]
Orkan, taktarnir og hinn einstaki hljómur suðurrikjarappsins hefur þó án efa haft meiri áhrif á vaxandi vinsældir þess heldur en innihald textanna. Þungar bassalínur (oftast gerðar úr Roland TR-808 bassatrommunni) og mikil notkun á trommu- og hljóðgervlum hefur alltaf einkennt suðurríkja hipp hoppið, og þá sérstaklega eftir aldamótin 2000. Oftar en ekki má finna einföld, grípandi viðlög sem oft eru hrópuð af miklum ákafa í rappi frá suðrinu, þá oftast í smellum sem ætlaðir eru fyrir skemmtistaðina. Algeng þemu í textum frá suðrinu eru glæpir (svo sem fíkniefnasala), bílar, áfengi og vímuefni, kvenfólk og ofbeldi.[3] Þó er fjöldinn allur af suðurríkja rapplögum sem fjalla um gleðilegri umfjöllunarefni og eru þau oftast grípandi skemmtistaða smellir, sem geta haft í för með sér einhverskonar dansæði til dæmis Crank That með Soulja Boy.
Eftir mikla einokun New York borgar og Los Angeles á hipp hopp markaði Bandaríkjanna fóru listamenn frá suðurríkjunum að þyrsta í viðurkenningu. Borgir eins og Memphis og Miami komu sterkar inn seint á 9. áratugnum með sveitum eins og 2 Live Crew og 8 Ball & MJG.
Rapparinn Scarface og rappsveitin hans The Geto Boys frá Houston eru oft nefndir einir helstu brautriðjendur í stefnunni og þá helst platan þeirra Grip It! On That Other Level frá 1989, ásamt plötunum The Geto Boys 1990 og We Can’t Be Stopped 1991. Með útgáfu þessara platna varð Houston ein helsta miðstöð rapps í suðrinu og í raun fyrsta borgin fyrir utan New York og Los Angeles til að fanga athygli frá rapp heiminum. [4]
Einnig voru þeir Bun B og Pimp-C mjög miklir áhrifavaldar í að koma suðrinu upp á yfirborðið með sveit sinni “UGK” og plötunum Too Hard Too Swallow og Super Tight.[3] Atlanta fór að verða stórborg í hipp hopp senunni upp úr 1990 með sveitum á borð við OutKast og Goodie Mobb og voru OutKast fyrsta sveitin úr suðrinu til að jafnast á við sveitir frá austrinu og vestrinu í sölutölum.
Plötufyrirtæki hafa í gegnum tíðina sýnt suðrinu litla athygli og féll það oft á hendur listamannanna sjálfra að fjármagna og gefa út tónlist sína. Því er oft talað um að rapparar frá suðrinu þurfi að hafa meira fyrir því að komast inn í bransann.[5]
Þessi þróun varð til þess að ný suðurríkja hipp hopps plötuútgáfufyrirtæki urðu til eins og Cash Money Records og No Limit Records í New Orleans, So So Def Records og LaFace Records í Atlanta og Swishahouse í Houston.
Snemma eftir aldamótin 2000 varð einskonar sprengja í vinsældum suðurríkja rappsins. Frá Atlanta brutust rapparar á borð við Ludacris, T.I. og Young Jeezy inn á vinsældarlista. Lil Wayne frá New Orleans fór að gera vart við sig með plötum sínum The Carter og The Carter 2 sem gerðu hann hratt að einum eftirsóttasta listamanni hipp hoppsins.[6]
Houston gaf frá sér sölujötna eins og Chamillionaire, Slim Thug og Lil’ Flip og hljómsveitir sem höfðu haldið því niðri gegnum 10. áratuginn fóru að öðlast enn meiri aðdáendahóp, til dæmis UGK frá Houston og Three 6 Mafia frá Memphis.
Vinsældir Suðurríkja hipp hoppsins hafa verið á stöðugri uppleið síðustu ár. Þetta er af miklu leiti þökk sé listamönnum eins og T.I., Lil Wayne og Gucci Mane, sem hafa allir verið að selja jafn vel, ef ekki betur en, kollegar þeirra í New York og Los Angeles.[5]
Plöturnar Trap Muzik með T.I. frá 2003, Let’s Get It: Thug Motivation 101 með Young Jeezy frá 2005, Trap House með Gucci Mane, einnig frá 2005 hafa leitt af sér undirstefnu suðurríkja hipp hopps sem nefnist Trap. Trap hefur verið mjög áberandi á vinsældarlistum síðustu ár. Trap hefur gefið af sér tónlistarmenn eins og Waka Flocka Flame og Rick Ross ásamt því sem að þessi nýfundni áhugi á suðurríkja hipp hoppi hefur endurreist ferla fyrrum suðurríkjastjarna eins og Juicy J úr Three 6 Mafia og 2 Chainz (áður þekktur sem Titi Boy) úr Playaz Circle. Taktsmiðir sem hafa verið ómissandi í þeim vinsældum sem Trap nýtur í dag eru til dæmis Lex Luger, Southside On The Track og Drumma Boy.
Margar af fyrstu sveitum stefnunnar áttu uptök sín í Houston. Það voru sveitir eins og UGK og The Geto Boys. Hóstasaft, flottir bílar og gulltennur eru dæmi um hluti sem rótgrónir eru við lífstíl margra þeirra rappara sem koma frá Houston. Houston stíllinn er oftar en ekki hægari og slakari en þeir stílar sem tíðkast í öðrum borgum suðurríkjanna og á plötusnúðurinn DJ Screw að miklu leiti heiðurinn á því.[3] Aðferð hans að hægja á og dýpka lög í þeim tilgangi að skapa rólegri, þyngri stemningu, sem þekkt er sem Chopped And Screwed, féll vel í faðm Houston búa. Í svörtu hverfum borgarinnar var mikil hefð fyrir flottum, breyttum bílum og hentaði þessi tónlist einstaklega vel sem einskonar „rúnttónlist“. DJ Screw gaf reglulega út svokallaðar „Screw Tapes“. Þær voru eins konar samansafn af þekktum lögum í Chopped and Screwed stílnum ásamt nýjum lögum með einhverjum af þekktustu röppurum Houston-borgar. Vinsældir DJ Screw voru nokkuð takmarkaðar við suðurhluta Houston, enda var mikill rígur milli norður- og suðurhluta borgarinnar.[5]
Íbúar norðurhlutans fengu sína screw tónlist frá Michael “5000” Watts, en hann stofnaði plötuútgáfufyrirtækið Swishahouse árið 1997 sem gaf af sér einhverja af heitustu tónlistarmenn borgarinnar, þar á meðal Chamillionaire og Paul Wall. Þrátt fyrir að Watts hafi ávallt viðurkennt að Chopped And Screwed stíllinn hafi komið frá DJ Screw myndaðist nokkur ágreiningur meðal hlustenda um það hver hafi fundið upp stílinn. Nú til dags eru þó afar fáir sem mótmæla því að DJ Screw hafi byrjað stílinn.[4]
Nýlega hefur Houston fallið nokkuð í skugga Atlanta á vinsældarlistum.
Margir af vinsælustu listamönnum stefnunnar eiga rætur sínar að rekja til Atlanta. Þessi stórborg í hjarta Georgíufylkis hefur gefið af sér einhverjar söluhæstu stjörnur senunnar eins og Usher, Ludacris, T.I. og sveitina OutKast, en sú síðastnefna vann sex Grammy-verðlaun fyrir plötu sína Speakerboxxx/The Love Below.[1]
Hipp Hopp senan í Atlanta hófst með listamönnum á borð við Kilo Aloi, MC Shy-D, Raheem The Dream og DJ Smurf á níunda áratugnum en átti þó sitt fyrsta blómaskeið snemma á þeim tíunda.
Helsti brautriðjandi Krönk stefnunnar, sem tröllreið vinsældarlistum snemma á 21. öldinni, kemur frá Atlanta. En það er Lil Jon. Stíll hans í taktsmíðum má heyra enn þann dag í dag, og hefur krönkið haft mikil áhrif á það suðurríkja hipp hopp sem finna má í útvarpinu í dag.[7]
Ótrúleg velgengi suðurríkja hipp hopps á síðustu árum má að miklu leyti rekja til Atlanta, en rappararnir T.I. og Gucci Mane ásamt taktsmiðunum Drumma Boy og Lex Luger hafa verið ómissandi í þeirri yfirtöku suðurríkjarapps á vinsældarlistum sem orðið hefur á síðustu árum og koma þeir allir af götum Atlanta.[8]