Tígulfura | ||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Ástand stofns | ||||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||||
| ||||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||||
Pinus virginiana Mill. | ||||||||||||||||
Útbreiðsla
| ||||||||||||||||
Samheiti | ||||||||||||||||
Pinus turbinata Bosc ex Loudon |
Tígulfura (fræðiheiti: Pinus virginiana) er sígræn jurt af þallarætt. Þetta er meðalstórt tré, og vex oft í lakari jarðvegi frá Long Island í suður New York-fylki suður um Appalasíufjöll til vestur Tennessee og Alabama. Venjuleg stærð fyrir þessa furu er 9–18 m, en getur orðið hærri við betri skilyrði.[4] Stofninn getur orðið að 0,5 m í þvermál. Að öllu jöfnu verður hún 65 til 90 ára gömul.
Einkennandi stuttar (2–8 sm), gulgrænar barrnálarnar eru tvær saman í búnti og oft undnar. Slíðrið utan um þær er meira en 2,5 mm langt.[5] Könglarnir eru 4–7 sm langir og geta haldist á trénu í mörg ár, og oft (en ekki alltaf) sleppa þeir fræjunum á öðru ári. Frjókönglarnir sporöskjulaga og 10 til 20mm langir.[6] Börkurinn er rauður og brúnn á lit og hrjúfur, með tiltölulega smáum flögum. Ósjaldan eru trén með undna stofna.
Tígulfura vex í New York, New Jersey, Pennsylvania, Virginia, West Virginia, Ohio, Illinois, Kentucky, Tennessee, North Carolina, Georgía, Alabama, Mississippi,[5] Indiana, South Carolina, Maryland og Delaware.[6] Þar er hún í þurru skóglendi þar sem úrkoman er á milli 890 til 1400mm. Meðalhiti að sumri er um 21 til 24°C og að vetri um −4 til 4 °C. Hún er ekki vel aðlöguð skógareldum, en stærri trén geta oft lifað af. Þau hætta að geta fjölgað sér á milli 65 til 90 ára, en geta náð að 150 ára aldri. Elsta skráða tréð var 150 ára gamalt.[7]
Sérókar notuðu P. virginiana til lækninga. Þeir notuðu hana við mörgum einkennum eins og niðurgangi, stífleika í búki, kvefi, hita, gyllinæð, berklum og hægðatregðu. Þeir notuðu hana á mismunandi hátt; svo sem baðvatn sem börkur hafði verið látinn liggja í, gufur og olíur, róta og barrseyði, og í tjöru. Hún var einnig notuð í vissum helgiathöfnum. Í útförum voru greinar brenndar og öskunni kastað á elda heimilanna.[7]
Tegundin er nytsamleg í "endur"-skógrækt og sem fæða fyrir villt dýr. Önnur notkun er í jólatré, þrátt fyrir að vera með hvassar nálar og gulleitan vetrarlit. Einnig er hún nokkuð nýtt í viðarmassa og timbur.