Veiran (franska: Virus) er 33. Svals og Vals-bókin og sú fyrsta eftir höfundana Tome og Janry. Sagan birtist í tímaritinu Spirou á árinu 1982 en kom út á bókarformi á frummálinu árið 1984 og í íslenskri þýðingu sama ár.
Valur rannsakar komu dularfulls skips sem sett var í sóttkví við komuna frá Suðurskautslandinu. Þar rekst hann á Jón Harkan (skúrkinn úr Svamlað í söltum sjó og Sjávarborginni) sem flúið hefur frá borði. Hann er fárveikur eftir slys í háleynilegri veirurannsóknarstofu á Suðurpólnum og vill komast á fund Sveppagreifans.
Greifinn þróar mótefni, sem þó muni aðeins virka ef því er blandað við efni sem geymd eru í veirurannsóknarstofunni. Svalur og Valur halda því suður eftir, með Jón Harkan fársjúkan í för. Eftir viðkomu í annarri rannsóknarstöð á pólnum leggja félagarnir af stað til rannsóknarstofunnar ásamt fylgdarmönnum. Hópur glæpamanna reynir að stöðva för þeirra með öllum ráðum. Í ljós kemur að þeir starfa á vegum stórfyrirtækis sem vill leyna því að rannsóknarstofan hefur á laun unnið að þróun á sýklavopnum.
Svalur og Valur ná á síðustu stundu að bjarga fárveikum starfsmönnum rannsóknarstöðvarinnar og yfirbuga glæpamennina, nema foringjann sem sleppur. Í sögulok gerist Jón Harkan leiðsögumaður ferðamanna á slóðum atburðanna og snýr þar með endanlega baki við glæpafortíð sinni.
Bókin kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar á vegum Iðunnar árið 1984. Þetta var 19. bókin í íslensku ritröðinni.