Web Standards Project

Web Standards Project (skammstafað WaSP) var hópur vefhönnuða sem hvatti til aukinnar notkunar vefstaðla Alþjóðasamtaka um veraldarvefinn. Hópurinn var myndaður árið 1998 sem svar við aukinni sérhæfingu vafra og lélegum stuðningi þeirra við leiðandi staðla. Fyrsta markmið hópsins var að fá stærstu vafraframleiðendurna, Microsoft, Opera Software og Netscape, til að styðja að fullu staðlana HTML 4.01/XHTML 1.0, CSS1 og ECMAScript og tryggja þannig ákveðið samræmi milli vafranna. Meðal markmiða hópsins var að bæta vefaðgengi og langtímavarðveislu gagna á veraldarvefnum. Árið 2002 voru flestir stofnendur hættir og hlutverk hópsins fyrst og fremst að miðla upplýsingum. Árið 2013 var hópurinn formlega lagður niður.

Hópurinn hannaði prófsíður, Acid-prófin, sem voru vinsæl til að prófa stuðning vafra við grunnstaðla. Acid 1 prófaði stuðning við HTML 4 og CSS 1; Acid 2 prófaði stuðning við CSS 1 og 2; og Acid 3 prófaði stuðning við CSS 2, DOM og ECMAScript.