Yoko Tsuno

Yoko Tsuno er aðalsöguhetja í samnefndum belgískum teiknimyndaflokki sem birtist í teiknimyndablaðinu Sval og gefin út á bókarformi af útgáfufélaginu Dupuis. Roger Leloup, hefur teiknað og samið bókaflokkinn frá upphafi. Fyrsta Yoko Tsuno-bókin kom út árið 1972, en sú 30. og síðasta til þessa árið 2022.

Ævintýrin um Yoko Tsuno eru æsilegar vísindaskáldsögur þar sem hátækni kemur við sögu. Yoko Tsuno er rafmagnsverkfræðingur á þrítugsaldri. Hún er japönsk af uppruna en búsett í Belgíu. Sögusviðið er þó jörðin öll og raunar einnig fjarlæg sólkerfi.

Tvær aukapersónur fylgja Yoko Tsuno í flestum ævintýra hennar. Villi (franska: Vic Video) og Palli (franska: Pol Pitron) eru annars vegar rödd skynseminnar og hins vegar fulltrúi gáska og hvatvísi í sögunum. Táningsstúlkan Monya kemur við sögu í mörgum bókanna. Hún er ættleidd frænka Yoko Tsuno, en kom í raun úr framtíðinni frá árinu 3827 og býr yfir hæfileikum til tímaferðalaga sem reynt hefur á í nokkrum sögum.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Forlagið gaf út þrjár Yoko Tsuno-bækur á árunum 1985 til 1987 í þýðingu Þorvalds Kristinssonar og Bjarna Fr. Karlssonar. Bækur þessar voru nr. 12, 13 og 14 í upphaflegu útgáfunni.

  • 1. Kastaladraugurinn, útg. 1985. Kom fyrst út 1982 sem La Proire et L´Omre.
  • 2. Drottningar dauðans, útg. 1986. Kom fyrst út 1983 sem Les Archandes de Vinéa.
  • 3. Vítiseldur, útg. 1987. Kom fyrst út 1984 sem Le Feu de Wotan.