Ítalska gamanmyndin

Vittorio Gassman í I mostri frá 1963.

Ítalska gamanmyndin (ítalska: Commedia all'italiana) var stefna í ítalskri kvikmyndagerð sem átti blómaskeið frá lokum 6. áratugar 20. aldar fram á 8. áratuginn. Ítalska gamanmyndin henti einkum gaman að borgarastéttinni og vandræðum hennar, neysluhyggju og sjálfhverfu. Háðsádeilan snerist um ítalskt samfélag eftir ítalska efnahagsundrið á 6. áratugnum, eins og ítalska nýraunsæið snerist um samfélagsaðstæður á 5. áratugnum. Þannig var oft undirtónn samfélagsrýni í þessum myndum þótt þær gerðu aðallega út á létt gaman. Sumar af þessum myndum voru kaflaskiptar með stuttum sjálfstæðum gamansögum.

Fyrsta myndin sem er kennd við þessa stefnu er I soliti ignoti eftir Monicelli frá 1958 og sú síðasta gæti verið La terrazza eftir Scola frá 1980. Meðal þekkustu ítölsku gamanmyndanna eru Divorzio all'italiana (sem stefnan dregur nafn sitt af) frá 1961, Il sorpasso frá 1962, I mostri frá 1963, L'armata Brancaleone frá 1966, La ragazza con la pistola frá 1968, Profumo di donna frá 1974 og Un borghese piccolo piccolo frá 1977. Sérstök undirgrein ítölsku gamanmyndarinnar var erótíska ítalska gamanmyndin (commedia sexy) sem gerði út á kynlíf og nekt og henti gaman að tvöföldu siðgæði borgaralegs samfélags. Eftir stúdentaóeirðirnar undir lok 7. áratugarins varð meiri áhersla á stéttaátök og alvarlegri samfélagsgagnrýni í kvikmyndagerð almennt og þá má segja að blómaskeiði þessara mynda hafi lokið. Sömu leikstjórar tóku þá að gera alvarlegri ádeilumyndir, oft með gróteskum húmor, um leið og nýir leikstjórar komu fram, eins og Lina Wertmüller, Sergio Citti og Marco Ferreri.

Helstu leikstjórar sem tengjast þessari stefnu eru Mario Monicelli, Pietro Germi, Ettore Scola og Dino Risi; og helstu leikarar voru Alberto Sordi, Vittorio Gassman, Marcello Mastroianni, Ugo Tognazzi, Stefania Sandrelli og Monica Vitti. Margir frægir leikarar og leikkonur léku aukahlutverk eða tóku þátt í einni og einni mynd af þessu tagi. Sem dæmi má nefna Sophiu Loren, Ginu Lollobrigida, Raimondo Vianello, Catherine Spaak, Clint Eastwood og Dustin Hoffman.

Þeir leikstjórar sem fengust við gerð gamanmynda af þessu tagi gerðu líka dramatískar myndir á sama tíma. Aðrar gamanmyndir frá sama tímabili sem ekki eru tengdar sérstaklega við stefnuna voru meðal annars síðustu myndir Totò og fyrstu Fantozzi-myndir Paolo Villaggio. Ítalska gamanmyndin naut mikilla vinsælda um allan heim á blómaskeiði sínu og hafði áhrif á Hollywood-endurreisnina í Bandaríkjunum á sama tíma. Stefnan naut góðs af velgengni evrópskrar kvikmyndagerðar á 7. áratugnum og tengslum við alþjóðlega kvikmyndaframleiðslu í kvikmyndaverunum Cinecittà í Róm. Því lauk á 9. áratugnum þegar ítölsk kvikmyndagerð lenti í kreppu vegna samkeppni frá einkareknum sjónvarpsstöðvum og ofurvaldi Hollywood-mynda í kvikmyndahúsum.