Borgarhliðin í München eru þrjú: Karlstor, Isartor og Sendlinger Tor. Þau eru til mikillar prýði í miðborg München.
Isartor afmarkar miðborgina í vestri. Það er yngst hliðanna þriggja og var ekki reist fyrr en 1337 þegar borgarmúrarnir voru víkkaðir. Hliðið er með tvo hliðarturna og háan turn fyrir miðju. Alls eru fimm göt í hliðinu. 1833 var klukka sett í stóra turninn. Hún átti að verða sett upp í Karlstor, en það stórskemmdist óvart í púðursprengingu og því var klukkan sett upp í Isartor. Hliðið stórskemmdist í loftárásum Heimsstyrjaldarinnar síðari. Viðgerðum lauk ekki fyrr en 1957, en þær voru aðeins til bráðabirgða. 1971-72 fóru frekari viðgerðir fram og fékk hliðið þá sína núverandi mynd. Í dag er safn í hliðinu, tileinkað spaugfuglinum Karl Valentin. Auk þess er kaffitería í hliðinu.
Karlstor afmarkar miðborgina í austri. Það var reist um aldamótin 1300 og kom fyrst við skjöl 1302. Það hét þá Neuhauser Tor. Hliðið er með tvo ferningslaga turna, alsettum varnargrjóti. Götin eru þrjú. Hliðið hefur nokkrum sinnum verið lagfært og stækkað. 1791 var turnunum breytt talsvert og þá var farið að kalla hliðið Karlstor. 1857 varð sprenging í vopnageymslu í hliðarhúsi sem stórskemmdi hliðið. Það var því gert upp og var þá núverandi tenging sett á milli turnanna. Í loftárásum seinna stríðsins stórskemmdist hliðið á nýjan leik og var byggt upp á ný í einföldu formi. Þegar verslunarhús við hliðina var umbreytt, komu í ljós leynigöng sem lágu frá hliðinu í austurátt. Göng þessi mátti nota til að komast aftur fyrir víglínu óvina eða nota það sem flóttleið.
Sendlinger Tor er þriðja gamla borgarhliðið sem enn stendur í München og afmarkar miðborgina til suðurs. Hliðið var reist þegar borgarhliðin voru útvíkkuð í kringum aldamótin 1300 og kom fyrst við skjöl 1319. Hliðið er ákaflega einfalt. Tveir múrsteinsturnar sem eru tengdir með steinboga. Hliðið var þó stærra áður fyrr, en hlutar þess voru fjarlægðir 1808. 1906 var miðhlutinn tekinn burt og núverandi bogi settur á í staðinn, til að rýmka til fyrir umferð. Hliðið slapp við meiriháttar skemmdir í loftárásum seinna stríðsins og var síðast lagfært á níunda áratugnum.