Nína Sæmundsson, skírð Jónína Sæmundsdóttir (fædd 22. ágúst 1892 í Nikulásarhúsum í Fljótshlíð, dáin í Reykjavík 29. janúar 1965), var íslenskur myndhöggvari og listmálari, sem starfaði lengst af í Bandaríkjunum. Nína nam við hina Konuglegu dönsku listaakademíu í Charlottenborgarhöll undir leiðsögn Julius Schultz og Einar Ultzon-Frank. Þekktust er hún fyrir höggmyndir sínar, þ.á m. Sofandi drengur, Móðurást og Afrekshug, sem stendur yfir aðalanddyri Waldorf-Astoria hótelsins í New York, en afsteypu stytturnnar má finna í miðbæjargarðinum á Hvolsvelli. Afsteypa Hafmeyju Nínu frá 1948, sem afhjúpuð var á Tjörninni í Reykjavík 1959, var sprengd í loft upp á nýársdag 1960, en illvirkjarnir náðust aldrei. Ný bronsafsteypa, gjöf frá Smáralind verslunarmiðstöðinni, var sett upp á Tjörninni 2014. Nína helgaði sig málaralist síðustu æviár sín.
Árið 2004 færði Ríkey Ríkarðsdóttir, myndlistarkona og náfrænka Nínu, Listasafni Reykjavíkur að gjöf 11 höggmyndir eftir Nínu.
Nína var trúlofuð Gunnari Thorsteinssyni, bróður myndlistarmannsins Muggs, þegar hann lést árið 1921 langt fyrir aldur fram.
Nínu er stundum ruglað saman við nöfnu sína, Nínu Tryggvadóttur, myndlistarkonu.