Þingeyraklaustur

Þingeyraklaustur var klaustur á Þingeyrum í Austur-Húnavatnssýslu af Benediktsreglu sem talið er að Jón Ögmundsson biskup á Hólum hafi stofnað 1112 en það var formlega sett 1133.

Sagt er að Jón biskup hafi farið til vorþings á Þingeyrum á hörðu vori skömmu eftir að hann tók við biskupsdómi og hafi þá heitið því til árs að reisa klaustur á Þingeyrum. Gaf hann til klaustursins allar kirkjutíundir af eignum milli Hrútafjarðar og Vatnsdalsár. Vinur hans Þorkell prestur trandill sá um klausturbygginguna en ekki náðist að ljúka henni fyrr en tólf árum eftir lát Jóns biskups, sem dó 1121.

Klaustrið varð mjög auðugt og var eitt helsta klaustur landsins. Margir munkanna voru fræðimenn. Í klaustrinu voru samin og skrifuð upp ýmis fornrit, sem enn eru til og stóð klaustrið í miklum blóma þegar Karl Jónsson var þar ábóti. Þá voru í klaustrinu margir lærðir menn, svo sem munkarnir Gunnlaugur Leifsson og Oddur Snorrason. Einnig átti klaustrið blómaskeið á tíma Guðmundar ábóta (1309-1338) og Arngrímur Brandsson, sem var ábóti 1350-1361, var líka mikill fræðimaður.

Það stappaði nærri að Svartidauði lagði staðinn í eyði eftir aldamótin 1400, og sagt er að aðeins einn munkur hafi verið eftir í klaustrinu þegar pláguna lægði. Ekki er vitað með vissu um ábóta þar aftur fyrr en 1424.

Þingeyraklaustur stóð til siðaskipta. Séra Björn Jónsson á Melstað, sonur Jóns biskups Arasonar, var til aðstoðar síðasta ábótanum, Helga Höskuldssyni, sem orðinn var gamall og hrumur, en var höggvinn með föður sínum og bróður 1550. Klausturlifnaður hélst til næsta sumars en þá var klaustrið lagt af og 65 jarðir sem það átti féllu til konungs.

Frá 2014 hafa rústir klaustursins verið grafnar upp. [1]

Ábótar á Þingeyrum

[breyta | breyta frumkóða]
  • Vilmundur Þórólfsson, sem fyrstur var vígður ábóti á Þingeyrum 1133, var frá Möðrufelli í Eyjafirði en hafði alist upp á Hólum hjá Jóni biskupi og lært í Hólaskóla. Hann gegndi starfinu til dauðadags 1148 og efldi klaustrið töluvert.
  • Ýmsar heimildir telja að Nikulás Sæmundsson hafi verið annar í röð ábóta á Þingeyrum og hafi orðið ábóti fyrir 1153 en dáið 1158 eða 1159. Líklega er þó einhver ruglingur á ferðinni en Nikulás Bergþórsson ábóti á Munkaþverá dó 1159.
  • Ásgrímur Vestliðason hefur því líklega verið annar í röðinni og sennilega var það í ábótatíð hans sem klaustrið brann til kaldra kola 1157. Hann var fræðimaður og er talinn einn heimildarmanna Odds Snorrasonar og Gunnlaugs Leifssonar að Ólafs sögu Tryggvasonar. Hann dó um 1161.
  • Hreinn Styrmisson frá Gilsbakka, sonur Styrmis Hreinssonar goðorðsmanns, var alinn upp hjá Jóni Ögmundssyni og var lærisveinn hans. Talið er að hann hafi verið vígður 1166 og gegnt ábótastarfinu til dauðadags 1171. Hann hafði verið giftur Hallberu, dóttur Hrafns Úlfhéðinssonar lögsögumanns, og voru dætur þeirra Valdís og Þorbjörg, sem var frilla Gissurar Hallssonar.
  • Karl Jónsson var vígður ábóti 1169, sagði af sér 1181 en varð aftur ábóti seinna. Hann dó 1213. Hann var merkur maður, lærður og setti saman margar bækur.
  • Kári Runólfsson tók við af Karli, var vígður 1181 og dó 1188.
  • Karl Jónsson varð þá aftur ábóti en sagði aftur af sér 1207 að því er talið er.
  • Þórarinn Sveinsson var vígður ábóti 1207 og dó 1253.
  • Vermundur Halldórsson var vígður ábóti 1254. Hann var áður prestur og var einn þeirra sem reyndu að bera sættir milli Þórðar kakala og Brands Kolbeinssonar fyrir Haugsnesbardaga 1246.
  • Bjarni Ingimundarson hét næsti ábóti. Hann var vígður 1280 og dó 1299.
  • Höskuldur ábóti var vígður árið 1300 en dó manndauðavorið svokallaða, 1309.
  • Guðmundur, sem þá varð ábóti, var systursonur Höskuldar. Hann var bæði mikill fjáraflamaður fyrir klaustrið og einnig fræðimaður og lagði kapp á að mennta sjálfan sig og munka sína sem best, fékk meðal annars Lárentíus Kálfsson prest og síðar biskup til að kenna við klaustrið. Árið 1318 vígði Guðmundur ábóti svo til munklífis þá Lárentíus, Árna son hans og Berg Sokkason, sem seinna varð ábóti á Munkaþverá, og voru þeir allir miklir fræðimenn. Guðmundur átti í deilum við Auðunn rauða Hólabiskup út af fjármálum klaustursins. Fór hann utan 1318 til að fylgja eftir máli sínu, sem hann hafði skotið til erkibiskups. Björn Þorsteinsson veitti klaustrinu forstöðu á meðan. Guðmundur kom aftur 1320 en árið eftir dó Auðunn biskup í Noregi og var Lárentínus þá kjörinn biskup. Málarekstur hélt þó áfram í mörg ár og náðust ekki sættir fyrr en 1329. Guðmundur gaf frá sér ábótaembættið 1338, varð munkur á Munkaþverá en dó næsta ár.
  • Björn Þorsteinsson, sem leysti Guðmund af í utanferðinni, varð ábóti 1340 og dó árið eftir. Hann hafði verið ábóti á Munkaþverá frá 1334. Þorgeir príor stýrði klaustrinu eftir lát hans til 1344.
  • Eiríkur bolli kallaðist prestur sá sem varð ábóti á Þingeyrum 1344 en Ormur Ásláksson biskup setti hann af ári síðar og setti í staðinn Stefán ábóta á Munkaþverá.
  • Stefán Gunnlaugsson var vígður ábóti á Munkaþverá 1339 en 1345 varð hann ábóti á Þingeyrum. Hann dó 1350.
  • Arngrímur Brandsson hafði verið prestur í Odda á Rangárvöllum. Hann tók við 1350 og var vígður af Ormi biskupi á Lárentíusarmessu, 10. ágúst 1351. Arngrímur var fræðimaður og rithöfundur og skrifaði meðal annars sögu Guðmundar Arasonar biskups. Þegar Ormur fór úr landi haustið 1354 setti hann Arngrím sem staðgengil sinn en prestar neituðu að hlýða honum, enda var hann borinn ljótum sökum og var 1357 settur af bæði officialis-embætti og ábótadæmi. Eysteinn Ásgrímsson og Eyjólfur Brandsson, sem hér voru sem erindrekar erkibiskups, settu hann þó aftur í ábótastöðuna árið eftir og gegndi hann henni til dauðadags, 13. október 1361.
  • Gunnsteinn nokkur var vígður ábóti 1364 og gegndi starfinu til dauðadags 1384.
  • Sveinbjörn Sveinsson varð ábóti 1385. Hann dó í Svartadauða 1402 og lifði þá aðeins einn munkur eftir í klaustrinu.
  • Ásbjörn Vigfússon er næsti ábóti sem vitað er um. Hans er getið sem ábóta 1424 en líklega tók hann við starfinu fljótlega eftir Svartadauða. Hann dó 1439.
  • Jón Gamlason frá Lögmannshlíð í Eyjafirði var orðinn ábóti á Þingeyrum 1440 og hafið verið prestur áður og officialis í Hólabiskupsdæmi 1436. Hann dó 1488.
  • Ásgrímur Jónsson varð þá ábóti og hafði áður verið munkur á Þingeyrum. Hann dó 1495.
  • Jón Þorvaldsson stýrði klaustrinu frá dauða Ásgríms en var þó prestur á Höskuldsstöðum og er talið að hann hafi ekki verið vígður ábóti fyrr en 1501. Einnig hafði hann verið ráðsmaður Reynistaðaklausturs. Hann var frá Móbergi í Langadal, bróðir Bjargar konu Jóns Sigmundssonar lögmanns. Hann dó 12. maí 1514.
  • Eiríkur Sumarliðason, sem áður hafði verið prestur í Saurbæ í Eyjafirði, tók þá við. Loftur Guttormsson ríki var langafi hans. Hann átti í deilum um erfðafé við Finnboga Jónsson lögmann og var því máli stefnt til konungs. Eiríkur fór utan til að fylgja málinu eftir og fékk dæmt sér í hag í Ósló 1507. Eiríkur átti einnig, eftir að hann varð ábóti, í deilum við Gottskálk biskup og hafði einnig betur þar. Hann dó 1518.
  • Helgi Höskuldsson var vígður ábóti 1519. Hann var á Sveinsstaðafundi, þegar þeir deildu Jón Arason biskupsefni og Teitur Þorleifsson í Glaumbæ og var það þakkað honum að mannfall varð ekki meira, en Jón kunni honum engar þakkir fyrir og kærði hann fyrir ýnmsar sakir en varð lítið ágengt. Árið 1539 setti biskup Helga ábóta skriftir fyrir barneign og skikkaði hann til að fara þrívegis í suðurgöngu til Rómar til að fá aflausn. Björn Jónsson á Melstað, sonur biskups, gengdi ábótastarfinu á meðan. Helgi lét af starfi árið 1549 sakir elli og sjúkleika. Björn Jónsson annaðist stjórn klaustursins, eða var Helga til aðstoðar, en þegar hann var líflátinn haustið 1550 tók Helgi aftur við og stýrði klaustrinu til næsta sumars. Þá lagðist klausturlifnaður af með öllu en munkar fengu að vera þar áfram. Helgi lifði áratug til viðbótar og dó fjörgamall 1561.

„Þingeyraklaustur. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árg. 1887“.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Fundu rústir Þingeyrarklausturs eftir margra ára leit Rúv, 9/8 2024