Henrik Bjelke, Hinrik Bjelke, Hinrik Bjálki (13. janúar 1615 – 16. mars 1683) var norskur aðalsmaður sem hófst til virðingar innan danska ríkisins þegar átök hófust milli Danakonungs og danska aðalsins um einveldið, en Bjelke studdi konung í því máli. Bjelke var fyrsti norsk-ættaði maðurinn til að fá sæti í danska ríkisráðinu 1660. Henrik Bjelke var ríkisaðmíráll í Svíastríðinu 1657 og vann þar sögufrægan sigur á Svíum í sjóorrustu við Moen. Bróðir hans Jørgen Bjelke vann auk þess til baka lönd sem Svíar höfðu tekið í Noregi.
Bjelke var sonur norska kanslarans Jens Bjelke og hélt ungur til náms og var skráður 1633 í háskólann í Padúa á Ítalíu. Nokkru síðar gerðist hann hirðmaður Friðriks af Óraníu. Hann sagði sig úr þjónustu Friðriks þegar hann frétti af innrás Lennarts Torstensons í Jótland 1644 og hélt til Danmerkur með liðssafnað. Í mars það ár sendi Kristján IV hann til Noregs með ofurstatign og átti hann að þjóna undir norska ríkisstjóranum Hannibal Sehested.
Eftir friðarsamningana í Brömsebro fékk hann leyfi konungs til að halda erlendis og var um skeið hjá Corfitz Ulfeldt í Hollandi en gekk síðan í þjónustu Peters Melander hershöfðingja keisarahersins í Vestfalíu. 1648 sneri hann aftur til Danmerkur, var gerður höfuðsmaður á Íslandi og síðan aðlaður sama ár.
Árið 1653 var hann gerður að skipherra og 1654 var hann sendur til Íslands gegn enskum sjóræningjum. Í Svíastríðinu vann hann, ásamt Niels Juel, frægan sigur á sænska flotanum undir stjórn Clas Bjelkenstjerna við Moen 12. september 1657. Hann tók við formennsku í flotaráðinu af Ove Gjedde árið 1660, fékk sæti í danska ríkisráðinu sama ár og var gerður að ríkisaðmírál 1662. Á sama tíma var hann samt í sambandi við Corfitz Ulfeldt og virðist hafa haldið vináttu við hann og Leonóru Kristínu eftir að þau komust í ónáð hjá Friðriki III. Hann virðist þó ekki hafa verið látinn gjalda þessa.
Bjelke stýrði Kópavogsfundinum 1662 þegar Íslendingar undirrituðu erfðahyllinguna. Á tímum sjálfstæðisbaráttunnar lagði Jón Sigurðsson ríka áherslu á að á Kópavogsfundinum hafi í raun átt sér stað málamiðlum milli fulltrúa Íslendinga og Bjelkes þar sem sá síðarnefndi hét því að engar breytingar yrðu á stjórnskipan landsins á meðan hans nyti við. Í samræmi við það hafi landinu ekki verið skipaður stiftamtmaður fyrr en árið 1683 og skipan æðstu embættismanna haldist óbreytt. Sú söguskoðun hefur verið margítrekuð í ræðu og riti til þessa dags.
Í MA-ritgerð sinni frá árinu 2022 færir sagnfræðingurinn Gunnar Marel Hinriksson fyrir því rök að túlkun Jóns og sporgöngumanna hans hafi mótast af pólitískri óskhyggju, erfðahyllingin á Íslandi hafi ekki verið á nokkurn hátt frábrugðin því sem gerðist í Danmörku, Noregi og Færeyjum og landsmenn ekki haft aðstöðu til að setja skilyrði eða fyrirvara við hyllinguna. Stjórnskipan Íslands hafi þá þegar farið að taka mið af veruleika einveldisins og rétt sé að líta svo á að staða Henriks Bjelke hafi breyst úr því að vera lénsherra eða hirðstjóra í stiftamtmann.
Fyrirrennari: Jens Søffrensen |
|
Eftirmaður: Stiftamtmaður tekur við. |