Nýdönsk (einnig skrifað Ný dønsk og Ný dönsk) er íslensk hljómsveit sem stofnuð var árið 1987 og hefur gefið út 13 hljómplötur. Nafn hljómsveitarinnar var valið með hliðsjón af þeim sið bókabúða á þessum tíma að auglýsa "Ný dönsk blöð".
Hljómsveitin Nýdönsk var stofnuð árið 1987. Eftir að hafa gefið út nokkur lög á safnplötum gaf Nýdönsk út plötuna Ekki er á allt kosið árið 1989. Af þeirri plötu voru lögin „Fram á nótt“ og „Hjálpaðu mér upp“ vinsælust. Á þeim tíma var hljómsveitin skipuð þeim Daníel, Birni Jörundi, Ólafi Hólm, Einari og Valdimar.
Þegar platan Regnbogaland kom út árið 1990 voru einungis þrír fullgildir hljómsveitarmeðlimir eftir, þeir Daníel, Björn og Ólafur. Tveir sérlegir aðstoðarmenn voru tilteknir, þeir Jón Ólafsson og Stefán Hjörleifsson, en von bráðar voru þeir endanlega teknir inn í hljómsveitina. Tónleikaplatan Kirsuber kom út árið 1991. Hefur hún ekki verið fáanleg í nokkurn tíma. Sama ár gaf Ný Dönsk út plötuna Deluxe sem innihélt meðal annars smellina 'Landslag skýjanna', 'Alelda', 'Deluxe' og 'Svefninn laðar'. Á næstu plötu sveitarinnar Himnasending voru lögin 'Ilmur' og 'Horfðu til himins'. Hunang kom síðan út 1993. Árið 1994 skiptu Ný danskir um gír. Megas fékk þá til liðs við sig á plötunni Drög að upprisu og einnig spiluðu þeir í leikritinu Gauragangi.
Eftir þriggja ára þögn kom út safnplatan 1987-1997. Á þeirri plötu var að finna þekktustu lög hljómsveitarinnar, sjaldgæf lög en einnig þrjú ný. Daníel Ágúst tók þátt í gerð nýju laganna þrátt fyrir að vera á fullu með hljómsveitinni Gus Gus. Árið 1998 kom út platan Húsmæðragarðurinn og Pólfarir fylgdi árið 2001 og tók Daníel Ágúst ekki þátt í gerð þeirra.
Árið 2002 kom út platan Freistingar. Þar var að finna gömul lög hljómsveitarinnar í einfölduðum búningi. Daníel Ágúst söng í þremur lögum, meðal annars í nýja laginu „Fagurt fés“. Árið 2004 spilaði Nýdönsk með Sinfóníuhljómsveit Íslands, tónleikarnir voru gefnir út á geisladiski og DVD-diski. Árið 2008 þann 3. maí hlutu þeir svo Heiðursverðlaun FM957.